Fréttir og pistlar
Hér er að finna fréttir og pistla um málefni Öldrunarráðs Íslands og tengt efni.
Hlutfall eldri borgara í samfélagi vestrænna þjóða eykst ár frá ári. Um þessar mundir nemur fjöldi 67 ára einstaklinga á Íslandi um 10% þjóðarinnar og er gert ráð fyrir að þeim fjölgi árlega um 3% næstu áratugina. Áætlað er að landsmönnum fjölgi um 33% til ársins 2060 þegar Íslendingar verða 430 þúsund gangi spárnar eftir. Að sama skapi hækkar meðalaldur okkar og mega konur nú almennt gera ráð fyrir því að verða 84 ára og karlarnir 81 árs. Meðalaldur okkar fer þó enn hækkandi og 2060 munu konur almennt ná 88 ára aldri og karla verða 87 ára að meðaltali.
- DIPLÓMANÁM Á MEISTARASTIGI
í samstarfi við Félagsráðgjafardeild HÍ.
Nám í öldrunafræðum er tveggja ára nám á meistarastigi. Öldrunarfræði (gerontology) er þverfagleg fræðigrein sem fjallar um öldrun frá mismunandi sjónarhornum. Hún fjallar um félagslega, sálræna og líffræðilega öldrun og áhrif þess að eldast á einstaklinga og umhverfi þeirra. Innan öldrunar-fræða er lögð áhersla á samspil allra þessara þátta og hvaða áhrif þeir hafa á hinn aldraða og fjölskyldu hans.
Fyrir réttu ári var haldið Framtíðarþing um farsæla öldrun í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Á þinginu komu saman á annað hundrað manns, einstaklingar á öllum allri sem láta sig málefni aldraðra varða og starfsmenn í opinberri stjórnsýslu sem starfa að málaflokknum. Eins og kom fram í aðdraganda og kjölfar þingsins var markmiðið með þinginu að skapa vettvang til að vekja jákvæða athygli á öldruðum og stöðu þeirra í samfélaginu og ekki síður að skapa vettvang til málefnalegrar umræðu um málaflokkinn. Á þinginu skapaðist mikil umræða um það hvernig aldraðir líti eigin mál í samfélaginu og hvaða væntingar þeir hafi til efri áranna, umræða sem varð starfsfólki heilbrigðisstofnana, samtaka í öldrunarmálum og velferðarráðuneytis gott veganesti sem vonandi mun nýtast við nauðsynlega og tímabæra endurstefnumótun í málefnum aldraðra.
„Við erum alltaf á sama aldri innra með okkur," er haft eftir bandaríska rithöfundinum Gertrude Stein og er það án efa tilfinning sem flestir ef ekki allir upplifa þótt árunum fjölgi. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa þetta í huga þegar rætt er um málefni eldri borgara. Því miður einkennist umræðan um of af „vandamálum" þar sem dregin er upp dökk mynd af stöðu þessa mikilvæga þjóðfélagshóps í samfélaginu, hvort sem rætt er um líf, kjör eða valfrelsi eldra fólks.
Það er gott að eldast
Þó svo að sannarlega megi margt betur fara er engu að síður mikilvægt að halda því til haga sem vel er gert og sýna því jákvæða meiri áhuga. Það er nefnilega gott að eldast. Samfara almennt betri heilsu hafa valmöguleikar hinna eldri aukist í lífinu, til tómstunda og iðkunar annarra áhugamála. Tækifærin eru í raun óteljandi. Í dag hefur „gamla fólkið" svo mikið að gera að það slær mörgum okkar sem yngri erum ref fyrir rass þegar kemur að líkamlegri og andlegri virkni. Það er ekki tiltökumál lengur að mæta eldri borgurum í hlíðum Esjunnar eða á skokki eftir Sæbrautinni, svo dæmi séu tekin. Það er vert að hafa þetta í huga í dag, 1. október, á alþjóðlegum degi aldraðra.
Farsæl öldrun
Framtíðarþing um farsæla öldrun
Ráðhús Reykjavíkur - Tjarnarsalur
7. mars 2013 kl. 16:30-20:30
Óskað er eftir þátttakendum úr eftirfarandi hópum:
» 75 ára og eldri
» 55-75 ára
» 55 ára og yngri
» Starfsfólk sem tengist öldrunarmálum
Áhugasamir vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið
Markmið þingsins:
- Skapa umræðu meðal áhugasamra um öldrunarmál, væntingar og viðhorf til efri áranna.
- Vekja jákvæða athygli á eldri borgurum, stöðu þeirra og hvernig þeir líta á mál sín til framtíðar.