Rannsóknarsjóður
Rannsóknasjóður Öldrunarráðs Íslands hefur það hlutverk að styðja við bakið á rannsóknum í öldrunarmálum á Íslandi auk sérstakra verkefna annarra í málaflokknum, sem stjórn sjóðsins metur til þess fallin hverju sinni. Reynt er að veita styrki úr sjóðnum árlega. Aðalhvatamaður að stofnun sjóðsins var Gísli heitinn Sigurbjörnsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Grundar. Venja hefur verið að úthluta úr sjóðnum í námunda við afmælisdag Gísla, sem er 29. október.
María Finster Úlfarsson doktorsnemi í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri hlaut styrk Rannsóknarsjóðs Öldrunarráðs Íslands í ár. Hún er að vinna að rannsókn á reynslu sona af tengslum við aldraðar mæður sínar á hjúkrunarheimili og stuðningi sem þeir fá frá heilbrigðisstarfsfólki.
Rannsóknin er fyrsti hluti doktorsrannsóknar Maríu en heildarmarkmið rannsóknarinnar er að kanna kynjamun á samskiptum fullorðinna barna og mæðra þeirra, sem búa á hjúkrunarheimilum og greina þarfir barnanna fyrir fræðslu og stuðning frá heilbrigðisstarfsfólki. Leiðbeinandi Maríu er Dr. Kristín Þórarinsdóttir, dósent.
Stjórn öldrunarráðs bárust nokkrar góðar umsóknir og því var úr vöndu að ráða. Rannsóknin þótti metnaðarfull og eins þótti stjórn áhugavert að beina sjónum sínum að reynslu sona og þeirra þarfa þar sem mun oftar hefur verið litið til reynslu dætra.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta stjórnar Öldrunarráðs Íslands með Maríu styrkþega í miðið. Styrkurinn var veittur að venju á afmælisdegi Gísla Sigurbjörnssonar upphafsmanns sjóðsins í glænýju kaffihúsi hjúkrunarheimilisins Grundar sem var vígt við sama tilefni.
Sirrý Sif Sigurlaugardóttir doktorsnemi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs árið 2022. Rannsókn hennar ber heitið Heilsa, vellíðan og þarfir aðstandenda sem annast um eldri einstaklinga sem þiggja heimahjúkrun. Styrkurinn var veittur á 100 ára afmæli Grundar, elsta hjúkrunarheimils á Íslandi, á afmælishátíð þann 29. október. Það var vel við hæfi, þó tilviljun réði, að Sirrý hlyti styrkinn í ár enda hóf hún starfsferil sinn á Grund. Meðfylgjandi mynd var tekin af Kjartani Erni Júlíussyni í hátíðarsal Grundar. Á myndinni eru frá vinstri talið, Aríel Pétursson, Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, Sirrý Sif Sigurlaugardóttir, Birna Sif Atladóttir, Margrét Árdís Ósvaldsdóttir og forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson.