Þórunn Sveinbjörnsdóttir hlaut viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands árið 2022. 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir og öldrunarþjónustan eiga langt og farsælt samstarf. Eftir að börnin hennar komust á legg vann hún á leikskóla sem leiddi hana í trúnaðarstörf fyrir verkakvennafélagið Sókn þar sem hún var meðal annars í byggingarnefnd Sóknarhússins í Skipholti, varaformaður félagsins og síðan formaður. Umönnunarstörf inni á öldrunarstofnunum voru henni hugleikin og þá ekki síst menntun starfsmanna í umönnunarstörfum og hvernig hægt væri að tengja menntun þeirra betri launum og um leið að byggja brú yfir í frekara nám svo sem félags- og sjúkraliðanám. Á árunum 1995-2005 var Þórunn í stjórn Öldrunaráðs Íslands fyrir hönd ASÍ og síðustu árin sem formaður og aftur tíu árum seinna og þá sem fulltrúi Landsambands eldri borgara.

Afskiptum Þórunnar af málefnum eldra fólks var hvergi nærri lokið eftir að hún lauk störfum hjá Eflingu. Árið 2013 varð hún formaður Félags eldri borgara í Reykjavík í fjögur ár og síðan formaður Landssambands eldri borgara. Samstarf Þórunnar sem formanns Félags eldri borgara í Reykjavík og velferðarsviðs borgarinnar var gjöfult þar sem áherslan var meðal annars á tölvukennslu, bæklingagerð um öryggi eldra fólks í heimahúsum og akstur eldra fólks á efri árum. Símavina verkefni þegar að Covid geisaði sem hæst og yfirhöfuð velferðartækni sem gagnast gæti eldra fólki, það voru hennar ær og kýr segir náin samstarfskonan hjá borginni.

Þórunn lætur ekki deigan síga, hún situr í dag í verkefnastjórn sem leiðir vinnu við aðgerðaráætlun vegna heildarendurskoðunar á þjónustu við eldra fólk sem er skipuð af heilbrigðisráðuneytinu og eining er hún formaður Framkvæmdasjóðs aldraðra.


Þórunn er líka skógarbóndi en það starf átti að taka við þegar hún lét af störfum hjá Eflingu meðfram félagsstörfum og þannig er það enn þann dag í dag þar sem að plöntur eru komnar yfir 50 þúsund sem hún hefur ásamt sínu fólki komið til.