logo osÖldrunarráðs Íslands

Öldrunarráð Íslands eru regnhlífasamtök þeirra sem starfa að hagsmunum aldraðra hér á land. Að Öldrunarráði Íslands eiga því aðild samtök, félög, fyrirtæki og stofnanir, þar með talið sveitarfélög, sem vinna að málefnum aldraðra. Eru aðilar nú alls 32. Markmið Öldrunarráðs Íslands er að vinna að bættum hag aldraðra. Tilgangi sínum hyggst ráðið meðal annars ná með því að:

a. vinna að samræmdri stefnu í málefnum aldraðra og framkvæmd hennar
b. koma fram fyrir hönd aðila sinna eftir því sem við á
c. standa fyrir námskeiðum og ráðstefnum og beita sér fyrir almennri upplýsinga- og fræðslustarfsemi um málefni aldraðra
d. efla rannsóknir í öldrunarmálum með starfsemi sérstaks rannsóknarsjóðs
e. veita aðilum sínum aðstoð við skipulagningu verkefna og framkvæmd þeirra
f. annast samskipti við erlenda aðila

Stjórn Öldrunarráðs Íslands skipa níu aðilar. Formaður er Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen. forstöðumaður Droplaugarstaða og er hún fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ásamt Jórunni skipa stjórnina, Sigurður Sigfússon frá ASÍ sem er varaformaður, Sólveig Reynisdóttir frá Reykjavíkurborg sem er gjaldkeri og Hróðný Lund frá svietarfélagi Norðurþings sem er ritari. Meðstjórnendur eru svo Anný Lára Emilsdóttir frá Félagi stjórnenda í öldrunarþjónustu, Sigurður Garðarsson frá Sjómannadagsráði, Hrafnistuheimilunum, Guðbjörg Guðmundsdóttir frá hjúkrunarheimilinu Grund, Tryggvi Þórhallsson frá sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Landssambandi eldri borgara. 

Forvarnir og þátttaka

Við stofnun Öldrunarráðs fyrir 35 árum var mikil áhersla lögð á fræðslu þar sem takmarkið var að upplýsa þjóðina um ýmis hagsmunamál aldraðra. Í dag, þegar vitundin er orðin mun sterkari, mun ráðið skoða hvar veikir blettir eru á hagsmunagæslu aldraðra og finna út frá því hvar kraftar ráðsins nýtast best. Samfélagið er að breytast mikið og sífellt stærri hluti samfélagsins að verða aldraður, það krefst nýrrar hugsunar með enn frekari áherslu á forvarnir og þátttöku aldraðra í samfélaginu. 

Öldrunarráð er til húsa á Snorrabraut 58, 105 Reykjavík
Sími: 414-9500

 

Jórunn Frímannsdóttir
formaður Öldrunarráðs Íslands