„Við erum alltaf á sama aldri innra með okkur," er haft eftir bandaríska rithöfundinum Gertrude Stein og er það án efa tilfinning sem flestir ef ekki allir upplifa þótt árunum fjölgi. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa þetta í huga þegar rætt er um málefni eldri borgara. Því miður einkennist umræðan um of af „vandamálum" þar sem dregin er upp dökk mynd af stöðu þessa mikilvæga þjóðfélagshóps í samfélaginu, hvort sem rætt er um líf, kjör eða valfrelsi eldra fólks.
Það er gott að eldast
Þó svo að sannarlega megi margt betur fara er engu að síður mikilvægt að halda því til haga sem vel er gert og sýna því jákvæða meiri áhuga. Það er nefnilega gott að eldast. Samfara almennt betri heilsu hafa valmöguleikar hinna eldri aukist í lífinu, til tómstunda og iðkunar annarra áhugamála. Tækifærin eru í raun óteljandi. Í dag hefur „gamla fólkið" svo mikið að gera að það slær mörgum okkar sem yngri erum ref fyrir rass þegar kemur að líkamlegri og andlegri virkni. Það er ekki tiltökumál lengur að mæta eldri borgurum í hlíðum Esjunnar eða á skokki eftir Sæbrautinni, svo dæmi séu tekin. Það er vert að hafa þetta í huga í dag, 1. október, á alþjóðlegum degi aldraðra.
Baráttunni hvergi lokið
Í umræðunni um aldur og aldraða er vert að minnast þess að aldur er afstæður. Á það benti Satchel Page þegar hann sagði: „Hversu gamall værir þú ef þú vissir ekki aldur þinn?" Þess vegna er það ef til vill miður að tileinka þurfi öldruðum sérstakan alþjóðlegan dag, svo sjálfsagður og samofinn aldurshópurinn er í samfélagi þjóðanna. Ef til vill er ástæðan sú að baráttunni fyrir málefnum eldra fólks er hvergi nærri lokið. Ár eftir ár skerða stjórnvöld framlög til málaflokksins og nú er svo komið að líklegt er að margt sem ánunnist hefur tapist á nýjan leik haldi fram sem horfir. Afturför í málaflokknum blasir því við sjái stjórnvöld ekki að sér.
Við lifum æ lengur
Samfara hækkandi lífaldri fólks í þróuðum ríkjum eykst hlutfall eldri borgara í heiminum. Hér á landi er hlutfall þeirra sem náð hafa 67 ára aldri um 10 prósent landsmanna. Um þessar mundir er gert ráð fyrir að Íslendingum fjölgi um 33% á næstu 46 árum og verði um 430 þúsund árið 2060. Við, karlarnir getum nú vænst þess að verða 81 árs og konurnar enn eldri, eða 84 ára að meðaltali. Börnin okkar munu ef að líkum lætur verða enn eldri árið 2060, karlarnir 87 ára og konurnar 88. Það dregur saman með kynunum.
Okkar að taka við keflinu
Það er verkefni okkar sem yngri erum að leggja öldruðum lið, taka við boltanum í baráttunni fyrir bættum hag eldra fólks. Ef rétt verður á málum haldið er ég viss um að við getum gert okkar góða land ennþá betra. Vonandi upplifi ég þann dag að allt eldra fólk njóti þeirra lífsgæða sem þau eiga skilið.
Pétur Magnússon
Höfundur er formaður Öldrunarráðs Íslands