Gerum vel við aldrað fólk
Aldur og aldraðir eru hugtök sem hafa sannarlega tekið breytingum í gegnum tíðina. Árið 1840 voru meðallífslíkur um 45 ár hér á landi en í dag þykir fólk kveðja ungt, látist það fyrir 80 ára aldur. Jafnframt hefur orðið mikil vakning varðandi lífsgæði þeirra sem eldri eru. Í umræðunni um aukinn meðalaldur verður að hafa í huga að aðalatriðið er ekki að fólk nái einhverjum tölulegum aldri heldur miklu frekar að fólki hafi sem besta möguleika til að viðhalda lífsgæðum í samræmi við óskir, getu og þarfir hvers og eins. Það er hollt að minnast þessa á alþjóðlegum degi aldraðra, sem haldin er þann 1. október ár hvert.
Þegar málefni eldra fólks hér á landi eru borin saman við önnur lönd er ljóst að staða málaflokksins hér er að mörgu leiti mjög góð. Þeirri staðreynd má ekki gleyma. Hins vegar verður í þessum samanburði að hafa í huga að lífsgæði á Íslandi eru almennt mjög mikil og sem betur fer finnst mér yfirleitt ríkja það viðhorf að allir þjóðfélagsþegnar eigi að fá að njóta þessara gæða. Í þessu ljósi eigum við, því miður, margt ógert og megum hvergi slaka á.
Annað verkefni sem blasir við þjóðinni er fjölgun eldra fólks. Mannfjöldaspár sýna að á næstu áratugum mun fjöldi eldra fólks margfaldast og að þessi aldurshópur mun verða sífellt stærra hlutfall af aldurssamsetningu þjóðarinnar.
Baráttunni í málefnum eldra fólks er því hvergi nærri lokið hér á landi. Síðustu ár hefur verið töluverður niðurskurður í þessum málaflokki. Ýmis teikn eru á lofti að við óbreytt ástand getum við ekki náð að halda í það sem áunnist hefur, hvað þá að gera málin ennþá betri. Þeir sem stjórna landinu í dag þurfa því sannarlega að bretta upp ermar og koma tímanlega með markvissar lausnir.
Þrátt fyrir þetta hefur verið mikil gróska í málefnum eldra fólks hér á landi á síðustu árum. Í þeim geira sem ég starfa í, umönnun og þjónustu þeirra sem veikastir eru, er að verða bylting í aðbúnaði og þjónustu í takt við nútímakröfur. Hjúkrunarheimili eru mörg hver að innleiða nýja hugmyndafræði þar sem horfið er frá spítalaumhverfinu yfir í heimilislegri nálganir án þess þó að slá af kröfum um gæði og þjónustu. Jafnframt er gaman að sjá að sérhæfðum starfsstéttum sem sinna málefnum eldra fólks er að fjölga en vænst þykir manni að sjá að ættingjar og aðstandendur þeirra sem veikastir eru, eru sífellt að taka aukinn þátt í daglegu lífi á slíkum heimilum og vakning er um mikilvægi samskipta milli kynslóða.
Að vissu leyti þykir mér miður að aldraðir þurfi að hafa sérstakan dag til að vekja athygli á sér og sínum málefnum, svo sjálfsagður er þessi málaflokkur í huga mér og margra annara. Þetta er hins vegar verkefni fyrir samfélagið til að vinna að áfram og okkar sem yngri eru að taka við boltanum af ýmsum máttarstólpum í baráttunni fyrir betri hag eldra fólks. Ef rétt verður á málum haldið er ég viss um að við getum gert okkar góða land ennþá betra. Vonandi upplifi ég þann dag að allt eldra fólk njóti þeirra lífsgægða sem þau eiga skilið.
Pétur Magnússon
Höfundur er formaður stjórnar Öldrunarráðs Íslands