Hlutfall eldri borgara í samfélagi vestrænna þjóða eykst ár frá ári. Um þessar mundir nemur fjöldi 67 ára einstaklinga á Íslandi um 10% þjóðarinnar og er gert ráð fyrir að þeim fjölgi árlega um 3% næstu áratugina. Áætlað er að landsmönnum fjölgi um 33% til ársins 2060 þegar Íslendingar verða 430 þúsund gangi spárnar eftir. Að sama skapi hækkar meðalaldur okkar og mega konur nú almennt gera ráð fyrir því að verða 84 ára og karlarnir 81 árs. Meðalaldur okkar fer þó enn hækkandi og 2060 munu konur almennt ná 88 ára aldri og karla verða 87 ára að meðaltali.
Margir aldraðir segja að það besta við að eldast sé frelsið til að ráða tíma sínum og sinna betur öllu því sem hefur mögulega setið á hakanum gegnum tíðina. Einnig nefna margir aukinn þroska og víðsýni sem lífsreynslan færi manni samfara hækkandi aldri ásamt auknum tækifærum til að gefa af sér og miðla af til yngri kynslóða. Þá eru áhugamálin og gæðastundirnar með börnum og barnabörnum einnig mikilvægir þættir og gera m.a. að verkum að aldraðir hlakka ekki síður til morgundagsins og horfa björtum augum á árin framundan.
Sannarlega margt ánægjulegt
Í þessu sambandi er mikilvægt að við tökum okkur öll saman um að breyta viðhorfi samfélagsins til aldraðra, minnka neikvæðni og efla skilning á því að aldraðir eru ekki einsleitur hópur heldur hópur fjölbreyttra einstaklinga með ólíkar langanir, vonir og þrár.
Því miður er það svo umræðan um málefni aldraðra einkennist um of af því neikvæða þegar dregin er upp dökk mynd af lífi, kjörum og valfrelsi þjóðfélagshópsins. Þó að sannarlega megi margt betur fara í málaflokki aldraðra í okkar þjóðfélagi er einnig mikilvægt að halda hinu jákvæða jafnframt til haga og sýna þá fjölbreytni og það fjör sem einnig einkennir líf þeirra sem nú eru virkir í félagskap eldri borgara. Þannig mætti alveg fara að búa til nýja staðalmynd fyrir „gamla fólkið með því að færa það úr baðstofunni og inn á Sushi-staðinn,“ eins og það var orðað á framtíðarþingi um farsæla öldrun sem haldið var á síðasta ári í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Þrátt fyrir að mjög margir eldri borgarar blómstri og lifi sannarlega lífinu til fulls, er ljóst að baráttunni í málefnum eldra fólks er hvergi nærri lokið hér á landi. Síðustu ár hafa fjárveitingar til málaflokksins verið skornar verulega niður og ýmis teikn eru á lofti að haldi sú þróun áfram muni enn halla á ógæfuhliðina. Stjórnvöld þurfa því sannarlega að bretta upp ermar og koma með markvissar tillögur til úrbóta sem unnt er að standa við og framfylgja með skýrum áætlunum.
Í framhaldi af því þykir mér að vissu leyti miður að aldurshópurinn aldraðir þurfi að hafa sérstakan dag til að vekja athygli á sér og sínum málefnum en í dag 1. október er einmitt alþjóðlegur dagur aldraðra. Þetta er hins vegar verkefni fyrir samfélagið til að vinna að áfram og við sem yngri erum þurfum að taka við boltanum af ýmsum máttarstólpum í baráttunni fyrir betri hag eldra fólks. Ef rétt verður á málum haldið er ég viss um að við getum gert okkar góða land ennþá betra. Vonandi upplifi ég þann dag að allt eldra fólk njóti þeirra lífsgæða sem það á skilið.
Pétur Magnússon
Höfundur er formaður Öldrunarráðs Íslands