Fyrir réttu ári var haldið Framtíðarþing um farsæla öldrun í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Á þinginu komu saman á annað hundrað manns, einstaklingar á öllum allri sem láta sig málefni aldraðra varða og starfsmenn í opinberri stjórnsýslu sem starfa að málaflokknum. Eins og kom fram í aðdraganda og kjölfar þingsins var markmiðið með þinginu að skapa vettvang til að vekja jákvæða athygli á öldruðum og stöðu þeirra í samfélaginu og ekki síður að skapa vettvang til málefnalegrar umræðu um málaflokkinn. Á þinginu skapaðist mikil umræða um það hvernig aldraðir líti eigin mál í samfélaginu og hvaða væntingar þeir hafi til efri áranna, umræða sem varð starfsfólki heilbrigðisstofnana, samtaka í öldrunarmálum og velferðarráðuneytis gott veganesti sem vonandi mun nýtast við nauðsynlega og tímabæra endurstefnumótun í málefnum aldraðra.
Með hækkandi meðalaldri þjóða samfara vaxandi velmegun er eðlilegt að heilsutengd lífsgæði væru fundarmönnum ofarlega í huga, lífsgæði þar sem saman fara andleg, líkamleg og félagsleg færni til daglegs lífs með sem minnstum hömlunum. Þetta kom berlega í ljós í umræðunm á framtíðarþinginu, þar sem þátttakendur mátu farsæla öldrun í ljósi eðlilegra lífsgæða í stað sjúkdóma og getuleysis. Enda þótt það hafi ekki komið fram á þinginu sjálfu má segja að þessi sjónarmið séu í nokkru samræmi við núverandi stefnumótun í heilbrigðismálum þar sem lögð er áhersla á að aldraðir búi sem lengst á heimili sínu á eigin vegum í stað þess að flytjast til hjúkrunarheimilis. Það er góð stefna sem sátt er um, en á það ber jafnframt að líta að stefnan má ekki ganga út yfir gröf og dauða. Staðan í dag er sú að fleiri hundruð manns, sem misst hafa heilsuna og getu til sjálfstæðrar búsetu, komast ekki inná hjúkrunarheimili vegna plásseklu og fjárskorts. Á þessu verður að ráða bót.
Að njóta virðingar sem þjóðfélagsþegn
Eitt af því sem kom skýrt fram á málþinginu var sú áhersla að farsæl öldrun fæli í sér virðingu samfélagsins gagnvart öldruðum án tillits til elli, hrumleika eða vangetu. Enginn vill vera afgreiddur sem kennitala á blaði og byrði á samfélaginu. Því kemur það heldur ekki á óvart þótt fundarmenn teldu mikilvægt að aldraðir haldi sem lengst virkri félagslegri þátttöku sinni í samfélaginu og eigi jafnframt gott samband við fjölskyldu, ættingja og vini. Að sama skapi felst farsæl öldrun í sjálfstæði til eigin ákvarðana án afskipta annarra, að horfa glaður og stoltur yfir farinn veg og vera sáttur við sjálfan sig og eigin aðstæður. Mikilvægt er að hafa tækifæri til að njóta þeirra tækifæra sem gefast og taka erfiðleikum með æðruleysi og aðlögun að breyttum aðstæðum.
Hér hefur aðeins verið stiklað á því helsta sem fram kom á framtíðarþinginu. Í raun má segja að öll sjónarmið sem fram komu séu í samræmi við það sem sjálfsagt er og eðlilegt enda þótt á ýmsum sviðum gangi misjafnlega vel að uppfylla vonir og óskir þeirra sem málaflokkurinn snertir hvað mest. Allir eru sammála um að víða kreppir skórinn að og enn sé langt í land varðandi ýmis nauðsynleg úrlausnarefni í málefnum aldraðra. Kjarni málsins er sá að aldraðir eiga skilda farsæla öldrun í sátt við guð og menn eftir gott dagsverk til framþróunar samfélagsins. Þeir hafa skilað sínu og eiga rétt á að vera í dúndurstemmningu þar til yfir lýkur eins og einn eldri borgaranna orðaði það svo skemmtilega í Ráðhúsinu, þar sem þingið var haldið.
Pétur Magnússon
Höfundur er formaður Öldrunarráðs Íslands