Viðurkenningar
Árlega veitir Öldrunarráð Íslands sérstaka viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja hafa unnið einstakt starf tengt málefnum aldraðra. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar og er auglýst eftir tilnefningum í fjölmiðlum. Viðurkenningin er svo veitt á aðalfundi Öldrunarráðs, sem haldinn er í maí.
María Theodóra Jónsdóttir, fyrrum form. Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, FAAS
Öldrunarráð Íslands (ÖÍ) veitir í dag Maríu Theodóru Jónsdóttur, fyrrverandi formanni Félags áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, FAAS, viðurkenningu sína fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í þágu aldraðra.
María Theodóra var formaður FAAS í 15 ár, frá 1995 til 2010. Hún var meðal stofnfélaga og sat í stjórn félagsins í mörg ár áður en hún tók við formennsku. Á formennskuárum hennar óx starfsemi félagsins mikið, að miklu leyti vegna atorku hennar og elju. Í störfum sínum fyrir félagið lagði María m.a. mikla áherslu á vægi mannauðs og kærleika í þjónustu við sjúklinga og aðstandendur.
Dvalarheimilið Blesastaðir hlaut í gær viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands fyrir frábært starf í þágu aldraðra.
„Mér finnst þetta afskaplega ánægjulegt og mikill heiður. Þetta er viðurkenninga á því starfi sem við höfum unnið til þessa og vonandi getum við haldið því áfram," segir Hildur Hermannsdóttir framkvæmdastjóri. „Við höfum alltaf haft mjög gott starfsfólk og óhætt að segja að það eigi stóran hlut í starfinu hér og hvernig til hefur tekist."
Viðurkenning Öldrunarráðs Íslands
Viðurkenning Öldrunarráðs Íslands var afhent á aðalfundi ráðsins sem haldinn var fimmtudaginn 28. maí síðastliðinn. Þessi viðurkenning er nú veitt í fyrsta sinn en samþykkt var á aðalfundi ráðsins í fyrra að veita viðurkenningu þeim einstaklingi, stofnun eða félagasamtökum sem hafa unnið að málefnum aldraðra svo um munar. Viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands árið 2009 hlaut Sigurbjörg Björgvinsdóttir.