Dvalarheimilið Blesastaðir hlaut í gær viðurkenningu Öldrunarráðs Íslands fyrir frábært starf í þágu aldraðra.
„Mér finnst þetta afskaplega ánægjulegt og mikill heiður. Þetta er viðurkenninga á því starfi sem við höfum unnið til þessa og vonandi getum við haldið því áfram," segir Hildur Hermannsdóttir framkvæmdastjóri. „Við höfum alltaf haft mjög gott starfsfólk og óhætt að segja að það eigi stóran hlut í starfinu hér og hvernig til hefur tekist."
Móðir Hildar, Ingibjörg Jóhannsdóttir, stofnaði heimilið um miðjan níunda áratuginn en þá lét hún reisa húsið á landspildu sem hún hélt eftir er hún seldi jörðina Blesastaði. Hugmyndin var að dvalarheimilið yrði heimilislegt og íbúar þess litu ekki á það sem stofnun. Þeirri hugmyndafræði hefur verið haldið á lofti æ síðan. „Við leggjum áherslu á að hafa sem heimilislegast hjá okkur og höfum þannig haldið hugmyndum móður minnar á lofti," segir Hildur.
Hildur tók við rekstri heimilisins 1994. Hún segir gaman að sjá að stefnan í öldrunarmálum sé orðin sú að reka heimilisleg dvalarheimili og vonast að sjálfsögðu til að rekstri Dvalarheimilisins Blesastaða verði fram haldið. Hann hafi orðið erfiðari í seinni tíð er kröfur hafi aukist án þess að fjármagn hafi fylgt með.