Fréttatilkynning frá Öldrunarráði Íslands 20. maí 2014
Öldrunarráð veitir árlega sérstaka viðurkenningu til einstaklings, stofnunar eða félagasamtaka sem þykja hafa unnið gott og óeigingjarnt starf að málefnum aldraðra. Í gær hlaut Soffía Jakobsdóttir leikkona viðurkenningu ráðsins fyrir áralangt og óeigingjarnt starf með öldruðum, en það voru Hollvinir félagsmiðstöðvarinnar Hæðargarðs í Reykjavík sem tilnefndu Soffíu.
Soffía hefur um árabil tekið virkan þátt í félagsstarfi með öldruðum og lagt sitt að mörkum til að viðhalda félagslegri virkni þeirra og lífsgæðum.
Meðal annars þjálfar Soffía eldri borgara í upplestri, framsögn og framkomu á sérstökum námskeiðum sem njóta mikilla vinsælda. Hún starfrækir m.a. sérstakan framsagnarhóp sem æfir upplestur á ljóðum og öðru efni til flutnings opinberlega. Þessi hópur hefur komið víða fram, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi auk þess sem hópurinn hefur lesið Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Ríkisútrvapinu svo fátt eitt sé nefnt. Nú síðast flutti hópurinn dagskrá á sumardaginn fyrsta í Bústaðakirkju í tilefni hátíðarhalda þar.
Nánari upplýsingar veita Soffía Jakobsdóttir í síma 822 3653 og Pétur Magnússon, formaður Öldrunarráðs Íslands í síma 841 1600.