Árlega veitir Öldrunarráð Íslands viðurkenningu að fengnum tilnefningum sem geta verið um einstakling, stofnun eða félagasamtök.
Á aðalfundi Öldrunarráðs Íslands í desember 2020 var tilkynnt um hver hlyti viðurkenninguna árið 2020.
Að þessu sinni var það einstaklingur sem tilnefndur var vegna starfa sinna að öldrunarmálum í sinni heimabyggð.
Ágústa Þorkelsdóttir frá Refsstað, formaður Félags eldri borgara Vopnafirði og Bakkafirði er handhafi viðurkenningar Öldrunarráðs Íslands árið 2020.
Ágústa hefur verið mjög virk í félagsstörfum um áratugaskeið en að þessu sinni vakti það mikla athygli að á hennar vakt hefur verið unnið æði merkilegt starf við að safna gömlum ljósmyndum, skanna þær inn, finna nöfn á fólki sem þar er að finna og skrásetja. Vegna þessa magnaða verkefnisins hefur myndast líflegt og skemmtilegt félagsstarf í heimabyggð. Myndirnar í safninu eru nú orðnar yfir 11.000 talsins. Safnið með skrásetningu þess geymir ómetanlegar upplýsingar um tímann, þann sem liðinn er og ekki síður tímana sem við lifum nú.
Mikilvægi þessa óeigingjarna starfs er óumdeilanlegt og afar mikilvægt að merkilegar myndir og saga þess fólks þar er að finna glatist ekki.
Öldrunarráð Íslands færir Ágústu árnaðaróskir fyrir þetta merka starf sem mun örugglega verða til eftirbreytni miklu víðar.