Áhugaverð og þörf rannsóknarverkefni á sviði öldrunarmála hlutu styrk Öldrunarráðs í dag
Stjórn Öldrunarráðs Íslands (ÖÍ) veitti í dag, þriðjudag, fjóra styrki til rannsóknarverkefna á sviði öldrunarmála sem unnin verða á næstunni. Öldrunarráð veitir árlega styrki sem næst afmælisdegi Gísla heitins Sigurbjörnssonar, stofnanda dvalarheimilisins Grundar, en Gísli var jafnframt aðalhvatamaður að stofnun styrktarsjóðsins.
María K. Jónsdóttir, Ph.D., klínískur taugasálfræðingur við sálfræðiþjónustu geðsviðs LSH á Landakoti og dósent í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, hlaut styrk til að vinna áfram að þýðingu og staðfærslu hugbúnaðarins Addenbrooke Cognitive Examination (ACE) fyrir iPad spjaldtölvur. Um er að ræða skimunarpróf fyrir hugræna getu sem einkum er notað á þá sem eru 50 ára og eldri og leita læknis vegna minnisvandkvæða. Nánari upplýsingar veitir María í síma 554 1051, netföng:
Ingibjörg H. Harðardóttir, sálfræðingur og lektor í þroskasálfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hlaut styrk vegna verkefnis þar sem markmiðið verður að leita svara við því hvernig hægt sé að stuðla að farsælli öldrun í starfi með öldruðum. Megináhersla verður lögð á að draga fram það sem hefur gefist vel til að stuðla að þekkingarsköpun í ljósi reynslunnar. Leitað verður til starfsfólks stofnana er veita öldruðum þjónustu og athyglinni beint að því sem gefist hefur vel. Nánari upplýsingar veitir Ingibjörg í síma 847 9898, netfang:
Gísli Jafetsson, framkvæmdastjóri FEB - Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, og Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður FEB, tóku við styrk f.h. FEB til að endurtaka könnun sem gerð var 2005 til að komast að því hvert framlag eldri borgara væri til samfélagsins, einkum það sem ekki er sýnilegt. Niðurstöðurnar þá sýndu að framlag þeirra er mikið og dýrmætt þótt það verði oft hvorki metið til fjár né sé það alltaf sýnilegt. Nú er ætlunin að greina hver þróunin hefur orðið sl. 10 ár, t.d. á skoðunum almennings á því hvert mikilvægi eldri borgara sé í hinu kröfuharða og hraða samfélagi samtímans. Nánari upplýsingar veitir Gísli í síma 588 2111, netfang:
Sólveig Hrönn Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, hlaut styrk til rannsóknar á hegðunarvanda á hjúkrunarheimilum, tíðni þeirra og tengslum við vitræna skerðingu, þunglyndi, verki, virkni og notkun fjötra. Markmiðið er einnig að greina hvaða meðferðum og heilsufarsþáttum einkennin tengjast. Nánari upplýsingar veitir Sólveig í síma 6929693, netfang:
Frekari upplýsingar veitir Pétur Magnússon, formaður ÖÍ, sími 8411600, netfang:
Reykjavík 3. nóvember 2015.