Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri: Pétur Magnússon, formaður Öldrunarráðs Íslands, Sigrún Ingvarsdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir, Líney Úlfarsdóttir og Nanna Guðný Sigurðardóttir. |
Þrjú rannsóknarverkefni hlutu styrk Öldrunarráðs Íslands
Stjórn Öldrunarráðs Íslands veitti í dag, miðvikudag, þrjá rannsóknarstyrki úr styrktarsjóði ráðsins vegna verkefna í öldrunarmálum, en árlega er veitt úr sjóðnum. Afhending styrkjanna fór fram á Hrafnistu í Reykjavík og hlutu eftirfarandi framlag í ár:
Líney Úlfarsdóttir og Sigrún Ingvarsdóttir hjá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis hlutu 100 þúsund krónur í styrk vegna könnunar á „ofbeldi gegn öldruðum: Reynsla og viðbrögð starfsmanna heimaþjónustu“. Í henni verður leitast við að athuga hvort starfsmenn heimaþjónustu verði varir við ofbeldi gegn öldruðum í störfum sínum og hver viðbrögð þeirra eru sem verða varir við slíkt. Fram kemur í styrkumsókn að í sambærilegri könnum sem gerð var 2007 hafi komið fram að margir starfsmenn hafi grun um að aldraðir séu beittir ofbeldi og/eða hafi orðið vitni að slíku. Þykir nú tímabært að endurtaka könnunina.
Nánari upplýsingar um verkefnið veita styrkþegar í síma 411 1500.
Nanna Guðný Sigurðardóttir, sjúkraþjálfari og meistaranemi í hreyfivísindum við læknadeild HÍ, fékk styrk að upphæð 200 þúsund krónur til að rannsaka „árangur endurhæfingar á Hrafnistu í Reykjavík – afturskyggn samanburðarrannsókn á meðferðarlengd“. Í umsókn er bent á að gert sé ráð fyrir að 80 ára körlum og konum fjölgi um rúmlega 60% til ársins 2030. Miðað við óbreyttan eftirlaunaaldur muni stór hluti aldraðra lifa í a.m.k. 25 ár eftir að starfsævi lýkur. Því skipti góð heilsa miklu máli til að unnt sé að njóta þeirra lífsgæða sem stuðla að góðu og virku ævikvöldi og í því sambandi sé markviss endurhæfing mikilvæg.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir styrkþegi í síma 694-2236.
Ragnheiður Kristjánsdóttir, sjúkraþjálfari og diploma í öldrunarfræðum við HÍ, hlaut 100 þúsund króna styrk til að framkvæma rannsókn á niðurstöðum „þjóðfundar um farsæla öldrun“ sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í mars, og gildi þjóðfundarfyrirkomulagsins við rannsókn á málefnum aldraðra. Rannsóknin er meistaraverkefni við félagráðgjafadeild Háskóla Íslands og hluti af meistaranámi í öldrunarfræðum, Nordmag, samnorrænu meistaranámi í öldrunar–fræðum í samstarfi við Háskólann í Lundi í Svíþjóð, Háskólann í Jyvaskala í Finnlandi og HÍ.
Nánari upplýsingar um verkefnið veitir styrkþegi í síma 6918024.
Frekari upplýsingar
F.h. Öldrunarráðs:
Pétur Magnússon, form. í síma 841 1600.
Reykjavík 30. október 2013.