Styrkir veittir úr Rannsóknasjóði Öldrunarráðs Íslands 2010

styrk7556

Nýlega fór fram styrkveiting úr Rannsóknasjóði Öldrunarráðs Íslands. Sjóðurinn hefur verið starfræktur um langt skeið en aðalhvatamaður að stofnun hans var Gísli heitinn Sigurbjörnsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins Grundar. Venja hefur verið að úthluta úr sjóðnum í námunda við afmælisdag Gísla, sem er 29. október. Rannsóknasjóðurinn hefur það hlutverk að styðja við bakið á rannsóknum í öldrunarmálum á Íslandi auk sérstakra verkefna annarra í málaflokknum, sem stjórn sjóðsins metur til þess fallin hverju sinni. Á þessu ári barst stjórn Öldrunarráðs fjöldi umsókna vegna afar áhugaverðra rannsókna í öldrunarmálum. Það reyndist því vandasamt verk að velja þær umsóknir sem ákveðið var að veita styrki fyrir árið 2010.

Að þessu sinni var veitt úr sjóðnum samtals 950 þúsundum króna til fjögurra aðila. Þeir eru:

Brynhildur Jónsdóttir, sem stundar meistaranám í sálfræði við Háskóla Ísalands hlaut þrjú hundruð þúsund króna styrk vegna MS-verkefnis síns, þar sem hún rannsakar mynstur heilarita í vægri vitrænni skerðingu. Markmið rannsóknarinnar er að skoða tengsl frammistöðu á taugasálfræðilegum profum við mynstur heilarrita. Markhópurinn er einstaklingar sem greinast með væga vitræna skerðingu (MCI), sem oft er forstig Alzheimers sjúkdómsins, og er ætlunin að meta hópinn tvisvar með árs millibili til að fylgjast með breytingum. Rannsóknir undanfarinna ára hafa sýnt að meðgöngutími Alzheimers sjúkdóms er miklu lengri en áður var talið. Hægt er að sjá skerðingu í frammistöðu fólks á taugasálfræðilegum prófum, allt að 10 árum áður en greining á Alzheimers sjúkdómi liggur fyrir. Þetta millistig milli heilbrigðrar öldrunar og heilabilunar er kallað væg vitræn skerðing (mild cognitive impairment). Á þessu stigi er vitræn færni fólks skert á einhver hátt, en ekki nógu mikið til þess að fólk geti talist heilabilað. Rannsóknir hafa sýnt að sumir einstaklingar sem greinast með væga vitræna skerðingu, snúa aftur til fyrri færni, aðrir standa í stað, en stór hluti þróar með sér Alzheimers sjúkdóm eða aðra taugahrörnunarsjúkdóma. Væg vitræn skerðing er því verulegur áhættuþáttur fyrir Alzheimers sjúkdóm.

Guðrún Hallgrímsdóttir, deildarstjóri iðjuþjálfunar og félagsstarfs Hrafnistu í Hafnarfirði, hlaut tvö hundruð og fimmtíu þúsund króna styrk vegna rannsóknar sinnar á karlmönnum og karlmennsku á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem hún er að gera í samnorrænu meistaranámi í öldrunarfræðum við Háskóla Íslands. Með rannsókninni er ætlunin að skoða hvernig karlmenn, búsettir á dvalar- og hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu, skilgreina karlmennsku og hvernig þeirra upplifun sé af eigin karlmennsku¬ímynd. Hversu mikilvægt er það fyrir þá að viðhalda karlmennskuímynd sinni á efri árum og ef svo er upplifa þeir að þeir fái tækifæri til þess á heimilunum í gegnum afþreyingu, verkefni eða samveru? Margir karlmenn á dvalar- og hjúkrunarheimilum ólust upp við þær væntingar og kröfur samfélagsins að til að geta talist sannir karlmenn þyrftu þeir að vera vinnusamir og sjálfbjarga. Að sýna samkennd og tilfinningar í samskiptum við aðra þótti óviðeigandi og merki um veikleika og ósjálfstæði og ekki í samræmi við ímynd karlmennskunnar. Vandinn er sá að til þess að fá vistunarmat og þar með réttindi til búsetu á dvalar- og hjúkrunarheimili í dag þarftu að vera háð/-ur aðstoð við daglegar athafnir og því ekki lengur sjálfbjarga.

Helga Atladóttir, hjúkrunarforstjóri á Höfða á Akranesi, stundar meistaranám í hjúkrunarstjórnun við hjúkrunarfræðideild í Háskóla Íslands. Henni voru veittar þrjú hundruð þúsund krónur í styrk vegna rannsóknar sinnar á heilsufari og færni aldraðra með einkenni heilabilunar á hjúkrunardeildum á Íslandi og gæðum þeirrar hjúkrunar sem þeir njóta. Þessi rannsókn er meistaraverkefni Helgu í námi sínu við hjúkrunarfræðideild í HÍ.

Hrefna Brynja Gísladóttir, iðjuþjálfi á Akureyri. Hún hlaut eitt hundrað þúsund króna styrk til að sækja námskeið til kennsluréttinda í aðferðinni „Spark of life“ eða lífsneistanum eins og hún hefur verið kölluð hér á landi. Um nýlega aðferðafræði er að ræða, sem er sérstaklega ætluð til að virkja heilabilaða til aukinnar virkni og þátttöku í lífinu. Aðferðafræðin hefur farið sigurför um heiminn og eru nokkur hjúkrunarheimili hér á landi þegar byrjuð að tileinka sér hana í sínum meðferðarúrræðum.

Reykjavík 8. nóvember 2010.

F.h. stjórnar Öldrunarráðs Íslands,
Pétur Magnússon, formaður.

styrk7556
Styrkþegar úr Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs 2010


Mynd: Á myndinni eru f.v. Helga Atladóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Brynhildur Jónsdóttir og Pétur Magnússon, formaður stjórnar Öldrunarráðs Íslands. Hrefna Brynja Gísladóttir á Akureyri átti ekki heimangengt.