Húsfyllir á ráðstefnunni Aldrei of seint, heilsuefling eldri aldurshópa
Húsfyllir var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur á ráðstefnunni Aldrei of seint – Heilsuefling eldri aldurshópa í gær.
Ráðstefnan hófst kl. 14:00 með ávarpi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar. Á ráðstefnunni var farið ofan í saumana á því hvernig best er að standa að heilsueflingu eldri aldurshópa, fjallað var um félagslega þáttinn og mikilvægi næringar og hvaða heilsurækt henti. Mikilvægi þess að halda heilsu á efri árum og auka lífsgæði sín og samfélagslegan ávinning af því að landsmenn séu heilsugóðir og lifi sjálfstæðu lífi. Framsögumenn voru Ragnar Þórir Guðgeirsson formaður starfshóps á vegum Velferðaráðuneytis, Ólafur Þór Gunnarsson öldrunarlæknir, Janus Guðlaugsson íþrótta- og heilsufræðingur, Gylfi Ólafsson heilsuhagfræðingur, Sigrún Ingvarsdóttir félagsráðgjafi , Páll Ólafsson íþróttakennari, Kolbeinn Pálsson fyrrum íþróttamaður, Ólöf Guðný Geirsdóttir næringarfræðingur, Erla Gerður Sveinsdóttir læknir, og Þráinn Hafsteinsson íþróttafræðingur.
Hvað ætla stjórnvöld að gera til að hrinda í framkvæmd markvissri heilsueflingu eldri borgara? Rannsóknir hafa margsinnis staðfest að hreyfing og hollt mataræði leika lykilhlutverk í að bæta heilsu eldri borgara. Um þetta fjölluðu þeir Óttar Proppé heilbrigðisráðherra, Dagur B. Eggertssson borgarstjóri, Birgir Jakobsson landlæknir og Kristján Þór Magnússon sveitastjóri. Þeir höfðu þegar fengið hnitmiðaðar spurningar um heilsueflingu sem þeir svöruð, síðan voru pallborðsumræður.
Ráðstefnustjóri var Anna Birna Jensdóttir formaður Öldrunarráðs Íslands.
Hér má sjá undirbúninganefndina ásamt öllum framsögumönnum. Undirbúningsnefndina skipuðu frá Öldrunarráði Íslands Janus Guðlaugsson, Sigrún Ingvarsdóttir og Anna Birna Jensdóttir. Frá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands Kolbeinn Pálsson og Páll Ólafsson, frá Félagi eldri borgara Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir og Ellert B. Scram.
Þrjú rannsóknarverkefni fengu styrk Öldrunarráðs 2016
Árlega veitir Öldrunarráð styrki sem næst afmælisdegi Gísla heitins Sigurbjörnsonar fyrrum forstjóra Grundar, en hann var aðalhvatamaður að stofnun Rannsóknarsjóðs Öldrunarráðs Íslands. Alls bárust 10 umsóknir og samþykkti ráðið að veita 3 umsóknum styrk;
- Kristbjörg Sóley Hauksdóttir, MA nemandi í öldrunarfræðum, fékk styrk vegna verkefnisins „Að meta umfang og helstu birtingarmyndir ofbeldis í formi m.a. valdbeitingar gagnvart öldruðum sem búa á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu“.
- Berglind Soffía Blöndal, meistaranemi í klínískri næringarfræði, fékk styrk vegna rannsóknar sinnar „Forrannsókn: Næringarástand og fæðuöryggi aldraðra eftir útskrift af öldrunardeild“
- Lovísa Jónsdóttir, meistaranemandi í öldrunarfræðum, fékk styrk vegna forprófunar á Inter-RAI mælitæki sem metur umönnunarbyrði aðstandenda eldri borgara í heimahúsum.
Öldrunarráð Íslands óskar styrkþegum til hamingju. Myndin er frá styrkveitingunni 14. nóvember og eru þær frá vinstri Kristbjörg Sóley, Lovísa og Berglind ásamt Önnu Birnu Jensdóttur formanni Öldrunarráð.