Tveir hlutu styrk úr Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs Íslands

F.v. Dr. Erla S. Grétarsdóttir, sálfræðingur á Geðsviði LSH, Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöð Selfoss og meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri og Pétur Magnússon, formaður Öldrunarráðs Íslands.
F.v. Dr. Erla S. Grétarsdóttir, sálfræðingur á Geðsviði LSH, Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöð Selfoss og meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri
og Pétur Magnússon, formaður Öldrunarráðs Íslands.

Fyrsta nóvember veitti stjórn Öldrunarráðs Íslands tvo rannsóknarstyrki úr styrktarsjóði ráðsins vegna rannsókna í öldrunarmálum. Öldrunarráð veitir árlega styrki til rannsókna í málaflokknum og fór afhending þeirra fram við hátíðlega athöfn á Hrafnistu í Reykjavík.

Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri á heilsugæslustöð Selfoss og meistaranemi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, hlaut styrk að upphæð 300 þúsund krónur í tengslum við meistararannsókn sína, sem snýr að mati á gæðum þjónustu heimahjúkrunar á heilsugæslustöðinni á Selfossi. Markmið rannsóknarinnar er að meta hvort fræðsla til starfsfólks heimahjúkrunar skili sér í bættri og markvissari þjónustu við skjólstæðinga.

Dr. Erla S. Grétarsdóttir, sálfræðingur á Geðsviði LSH, hlaut styrk að upphæð 100 þúsund krónur í tengslum við rannsókn á upplifun einstaklinga sem greinst hafa með Alzheimers sjúkdóminn. Tilgangur rannsóknarinnar er að varpa ljósi á aðstæður ný-greindra Alzheimers sjúklinga út frá þeirra eigin reynslu og upplifun, en eldri rannsóknir hafa jafnan byggt á mati aðstandenda og fagaðila. Reyndar verða nýstárlegar mæliaðferðir notaðar til þess að leggja mat á færni sjúklinga og líðan þeirra frá ýmsum sjónarhornum.

Reykjavík 1. nóvember 2012.